Fara á efnissvæði
Vettvangur
Vettvangur

Nafn

Þorvaldur Einarsson

Staða

Tæknistjóri

Menntun

M.Sc. í rafmagnsverkfræði

Lyfja hefur keyrt greitt undanfarin misseri á sinni stafrænu vegferð. Þar gegnir Lyfju appið lykilhlutverki, sem var valið „Stafræn lausn ársins“ og „Verkefni ársins“ á Íslensku vefverðlaununum 2024, og til viðbótar „App ársins” og „Hönnun og viðmót ársins” nú í ár (2025).

Lyfja er nú hluti af Festi samstæðunni sem var valið „UT-Fyrirtækið 2024“.

Þorvaldur Einarsson, tæknistjóri Lyfju, hefur leitt þróun stafrænna lausna síðustu ár ásamt Karen Ósk Gylfadóttur sem nú hefur tekið við starfi framkvæmastjóra Lyfju. 


Lyfja 1@2X (1)

Liður í stefnumótun

Upphafleg útgáfa Lyfju appsins kom út 2020. Appið var þróað í samstarfi við Vettvang sem sá um bakenda, og Stokk sem annaðist framenda. 

Lyfju appið hafði í upphafi það markmið að vera auðveldasta leiðin til að kaupa lyfseðilskyld lyf og náði miklum árangri strax í byrjun. Þegar Þorvaldur og Karen komu að þróun appsins árið 2022 var lögð áhersla á að auka vöruúrval og að bæta heilsu viðskiptavina á breiðum grundvelli. 

Tækni uppfærð fyrir nýtt hlutverk
„Appið og þróun þess er liður í stefnu Lyfju, en lykilþáttur í henni er áhersla á bæta lífsgæði almennings. Það var skakkt að vera með app sem seldi bara lyfseðilskyld lyf. Stóra málið sem blasti við þá var að þá þurfti að laga tæknilega innviði og breyta hönnun til að ráða við stærra hlutverk.

Við ákváðum þá að auka við samstarfið við Vettvang og fengum Apparatus að borðinu til að taka við þróun appsins.”, segir Þorvaldur.

Tekin var sú ákvörðun að færa þróun appsins alfarið yfir til Vettvangs og nýstofnaðs systurfyrirtækis, Apparatus.

Bylting í rafrænni heilsuþjónustu

Sem fyrr segir hefur Lyfju appið í slegið í gegn hjá notendum enda bylting í þjónustu með lyf og heilsutengdar vörur. Í appinu er meðal annars hægt að

  • skoða lyfseðla í lyfseðlagátt
  • kaupa lyfseðilskyld og lausasölulyf - og fá ábendingar um ódýrari samheitalyf
  • kaupa heilsutengdar vörur
  • sækja pantanir í valið apótek eða fá sent heim innan klukkustundar
  • sækja um umboð til að versla lyfseðilsskyld lyf fyrir aðra
  • skoða verð á lyfjum og stöðu í greiðsluþrepakerfi Sjúkratrygginga Íslands
  • fá ráðgjöf sérfræðinga Lyfju í netspjalli
  • panta tíma hjá lyfjafræðingi til að fá ráðgjöf

Appið er sérlega notendavænt og einfalt í notkun, en undir húddinu gerast flóknari hlutir þar sem meðal annars þarf að sækja upplýsingar í þjónustur frá Sjúkratryggingum Íslands og lyfseðlagátt embættis landlæknis, þar sem ítrasta öryggis þarf að gæta.


A83A1912 Enhanced NR

Landsbyggðin þakklát
„Appið nýtist sérstaklega vel reglulegum viðskiptavinum, þeim sem þurfa að sækja lyf reglulega. Appið nýtist líka landsbyggðafólki mjög vel sem margt þarf að gera sér langa ferð í næsta apótek og vill vera viss um að lyfin séu örugglega til og klár til afhendingar þegar þau mæta á staðinn“, segir Þorvaldur.

Ný útgáfa 2023
Mikil og stöðug vinna hefur verið sett í þróun Lyfju appsins. Útgáfa 2.0 kom út 2023 þar sem hönnun og skipulag var endurhugsað frá grunni, en þar má finna nýjungar eins og

  • betri vöruflokkun og vöruúrval
  • bætt heilsufarsskráning
  • persónusniðið viðmót og meðmæli með vörum
  • uppfærður „tracker“ sem rekur stöðu pantana

Appið er í stöðugri þróun og síðan útgáfa 2.0 kom út hefur mörgu verið bætt við og meðal annars heimaskjárinn endurhannaður til að sýna betur vöru- og þjónustuframboð. 

Lykilatriði að virkja starfsfólkið

Hvernig gekk að virkja starfsmenn í því að innleiða nýja tækni og ferla?

„Það er algert lykilatriði í árangrinum, að fá starfsfólkið í lið með okkur og það hefur gengið mjög vel. Appið léttir undir álagi í afgreiðslunni þegar fólk sækir vörur sem hafa verið pantaðar í gegnum appið. Starfsfólkið mætir líka ánægðum viðskiptavinum sem eru í skýjunum með fljótari og einfaldari afgreiðslu.“


Lyfja 2@2X (1)

Mælingar og greining á notkun mikilvæg

Hvaða mælingar gerið þið til að meta árangur og þróa áfram þjónustu í tengslum við appið?

„Við höfum ýmsar leiðir til þess. Í appinu mælum við til dæmis meðmælaskor (e. net promoter score, NPS), sem segir okkur heilmikið. App viðskiptavinir eru ánægðustu viðskiptavinir Lyfju og ánægja þeirra er langt umfram almenna apóteksmarkaðinn.

Við höldum líka vikulega fundi innanhúss með lykilaðilum, þar sem við förum yfir hvernig vikan gekk, hvað megi betur fara, mönnun á heimsendingum og skoðum ýmsar mælingar, til dæmis afgreiðsluhraða. Það er kapp og keppnisandi í okkar fólki, við viljum alltaf gera betur“, segir Þorvaldur.

„Salan í gegnum Lyfju appið er í dag orðin á við stórt apótek og vex enn mjög hratt. Þessi vöxtur veldur alls konar góðum vaxtarverkjum, til dæmis hvað varðar að skala upp heimsendingar, halda framúrskarandi afgreiðsluhraða og tryggja sérstaklega mönnun í apótekum vegna appsins.“


Lyfja Notendur Throun

Mikill vöxtur

Notendum Lyfju appsins hefur fjölgað mikið síðustu ár og velta sömuleiðis. Ánægja meðal viðskiptavina lyfjaverslana er hvergi meiri en hjá notendum Lyfju appsins.

Kerfið hægir á nýsköpun

Hvernig gengur að stunda nýsköpun í starfsumhverfi sem ykkar, sem lýtur ströngu eftirliti og reglum?

„Við höfum dáldið þurft að taka slaginn, ýta á ráðuneyti og embætti landlæknis um ýmsa hluti. Dæmi um þetta er umboð sem viðskiptavinir geta veitt aðstandendum til að sækja lyf fyrir sína hönd og er til hagræðis fyrir marga. Þar þurftum við að smíða okkar eigin lausn þar sem við nýtum rafrænar undirskriftir sem þýðir að þú ert með löglegt umboð.“

Stuðningur við heilbrigðari þjóð

„Við viljum taka virkan þátt í að styðja við heilbrigði þjóðarinnar. Það er okkar markmið. Við erum að þróa lausnir sem geta létt heilmikið á kerfinu og bætt aðgengi að mikilvægri þjónustu. Við erum að reyna að ýta við hlutum í þungu regluverki en jafnframt að gæta þess að öryggi viðkvæmra heilsufarsupplýsinga sé í algjörum forgangi.

En það er ákveðin tregða hjá kerfinu að veita slíkum þjónustum leyfi, þótt heilbrigðisráðuneytið hafi úrskurðað um að allt standist lög og reglur.“


Lyfja 3@2X (1)

Framtíðin

Hvaða tækninýjungar sérðu fyrir þér hjá Lyfju í næstu framtíð? Er gervigreindin komin á blað hjá ykkur?

„Við sjáum fyrir okkur að ný tækni muni leysa betur ýmsa rútínuferla, aðstoða okkar sérfræðinga og flýta fyrir í afgreiðslu vara og þjónustu. En gervigreindin mun ekki leysa allt. Við þurfum alltaf að hafa manneskju í ferlinu.

Næsta mál á dagskrá hjá okkur er að tengja vef, app og verslun. Við viljum hjálpa búðum okkar úti á landi að veita sömu þjónustu- og vöruframboð og er í boði hér í stærstu verslunum okkar með aðstoð tækninnar. 

Þetta gerum við með fjarþjónustu í gegnum vef og app, og með því að bjóða skjóta og góða afgreiðslu á lyfjum og tengdum vörum. Við viljum tengja minni búðirnar betur við lausnirnar, ekki síst úti á landi, þannig að þær geti veitt betri þjónustu við sitt fólk.“


Lyfja 4@2X