Fara á efnissvæði
Vettvangur
Vettvangur

Vefverslun hefur aldrei þróast eins hratt og þessi síðustu misseri. Árið 2026 verður einkennandi fyrir samþættingu tæknilausna, mikla framþróun í persónusniðinni þjónustuupplifun og enn ákafari kröfu um hraðari og einfaldari afgreiðslu. 

Helstu drifkraftar eru gervigreind, betri gagnainnviðir og sífellt kröfuharðari neytendur sem vilja fá réttu vöruna, á réttum tíma og á sínum forsendum.

Hér eru 8 helstu straumar sem munu móta vefverslanir 2026:

1. Persónusniðin upplifun á sterum

Gervigreindin sér um sífellt stærri hluta söluferlisins, allt frá röðun og framsetningu vara, vörulýsingum, meðmælum og verðlagningu til tilboðsstýringar og sjálfvirkra sölutrekta (e. sales funnels) sem laga sig að hegðun hvers viðskiptavinar.

Þetta birtist meðal annars í lausnum eins og Shopify Magic,  Algolia AI Personalization, og Klaviyo AI, sem læra stöðugt af gagnastreymunum og aðlaga vöruframboð, framsetningu og tilboð í rauntíma. 

👉 Kynntu þér hvernig við hjálpum vefverslunum að ná meiri árangri með Algolia og Klaviyo!

Gervigreindin bætir ekki bara ferla heldur þjónustuupplifunina sjálfa - notendur skynja að verslunin „skilur“ þarfir þeirra betur og allt flæðið verður þægilegra.

AI erindrekar (e. AI agents) sem sinna fjölbreyttum erindum sjálfstætt verða sífellt algengari í rekstri. Í lok næsta árs mun 40% hugbúnaðarlausna fyrirtækja verða búinn slíkum erindrekum (um 5% í september 2025).

Forrester spáir því að á næsta ári munu 20% söluaðila í B2B þurfa að eiga viðskipti við slíka AI erindreka.

 


Wwwdominosis 2

Notendaupplifun skilur milli feigs og ófeigs

Þægindi í pantanaferli geta verið slík að tilhugsun um aðra söluaðila sem bjóða lakari notendaupplifun er óhugsandi. Domino's á Íslandi notar meðal annars gervigreind til að mæla með vörum og stækka körfu.

2. Röddin tekur yfir - samtalið er nýja sölutorgið

Raddstýrðir aðstoðarmenn og spjallviðmót eru að þróast úr einföldum þjónustuborðum í raunverulegar sölurásir. Gervigreindin getur nú lesið úr þörfum notandans, tengst birgðakerfum og pöntunarsögu, og átt eðlilegt samtal sem klárar sölu á nokkrum sekúndum.

Fólk mun venjast því að segja einfaldlega „pantaðu það sem ég keypti síðast“, og kaupin ganga í gegn jafnvel án þess að opna síma eða vafra á vef.

Þetta mun sérstaklega hafa áhrif á endurteknar pantanir og í B2B viðskiptum þar sem þægindi og hraði skipta öllu máli. Innkaupastjórar geta pantað með röddinni, fengið reglulegar stöðuuppfærslur og losnað við villur sem oft fylgja flóknu vöruúrvali.

Samhliða þessu verða „zero-click“-kaup algengari, þar sem kerfið pantar sjálfkrafa þegar birgðir eru að klárast.

3. AR og VR á næsta stig

Árið 2026 verða AR (aukinn/viðbættur veruleiki) og VR (sýndarveruleiki) orðin lykiltækni í vefverslun. AR verður ráðandi, fyrst og fremst vegna þess að notendur geta nýtt hana beint í símum sínum án viðbótartækja.

Með AR geta viðskiptavinir prófað fatnað, gleraugu, snyrtivörur og fylgihluti á sér, eða skoðað húsgögn og innanstokksmuni í eigin rými með 3d líkönum. Þetta eykur traust, auðveldar ákvarðanatöku og dregur verulega úr skilum.

AR verður einnig meira samþætt í samfélagsmiðla og öpp, þar sem notendur geta prófað vörur beint í Instagram, TikTok eða Snapchat og deilt upplifun sinni áfram.

VR heldur áfram að vaxa á afmarkaðri sviðum. Verslanir geta boðið upp á sýndarbúðir og upplifun þar sem viðskiptavinir „ganga um“ og skoða vörur í þrívídd. VR hentar sérstaklega vel fyrir flóknari eða dýrar vörur, til dæmis bíla, tækjabúnað eða sérsmíðaðar lausnir.

IKEA Place App notar AR tækni, þar sem viðskiptavinir geta mátað húsgögn í tiltekið rými, í síma sínum eða spjaldtölvu, sem minnkar líkur á skilum, eykur ánægju og minnkar kostnað. Úraframleiðandinn Baume & Mercier býður svipaða lausn, sem eykur líkur á sölu á dýrum neytendavörum í gegnum vefverslun.

Þróunin í AR/VR verður keyrð áfram af gervigreind, sem bætir persónusniðna upplifun, meðmæli í rauntíma og sýndarupplifun. Árið 2026 verða svona lausnir ekki lengur tilraunastarfsemi, heldur raunverulegt samkeppnisforskot í vefverslun.


Ar Vr

AR tækni hefur víða verið innleidd í vefverslunum

4. „Headless“, samsett kerfi – sveigjanleiki eða dauði?

Fyrirtæki sem treysta enn á stór, ósveigjanleg kerfi munu rekast æ oftar á veggi 2026 og framvegis. „Headless“ nálgun og samsettir tæknistakkar gera vefverslunum kleift að aðskilja framenda frá bakendanum, þannig að hvor hluti geti þróast sjálfstætt.

Þetta þýðir að fyrirtæki geta prófað nýja eiginleika, skipt út lausnum eða bætt við nýjum rásum án þess að taka niður allt kerfið eða setja reksturinn í heild í uppnám.

Afleiðingin er einfaldlega meiri hraði: hraðari uppfærslur og léttari leið til að innleiða nýja tækni þegar hún birtist á markaðnum. Í heimi þar sem breytingar gerast á mánuðum, ekki árum, verður þessi sveigjanleiki eitt helsta samkeppnisforskot vefverslana framtíðarinnar.

5. Samræmd þjónustuupplifun

Þessi þróun hefur verið að ágerast mörg undanfarin ár, en árið 2026 verður lítill spenningur fyrir söluaðilum sem líta á netverslun og hefðbundnar verslanir sem aðskildar einingar. Fólk hugsar ekki í sölurásum - það hugsar um vörumerki og heildræna upplifun sína af þeim.

Ef viðskiptavinur skoðar vöru á vefnum en finnur ekki sömu upplýsingar í versluninni, eða sér annað verð í appinu en við kassann brotnar traustið um leið.

Samræmd þjónustuupplifun (e. omnichannel experience) snýst um að láta alla snertifleti tala saman sem ein heild. Birgðir eru sýnilegar í rauntíma, verð eru samræmd og notandinn getur hoppað hnökralaust fram og til baka á milli rása. 

Þetta er grunnforsenda þess að halda í viðskiptavini sem búast við stöðugleika, samræmi og frábærri þjónustu óháð því hvar þeir eiga viðskipti eða samskipti.

6. Sjálfvirk og snjöll vöruhús

Vöruhúsin sjálf eru að taka risastökk inn í framtíðina um þessar mundir. Sjálfvirknivæðing verður grunnforsenda þess að halda í við vaxandi eftirspurn eftir hraðari og nákvæmari afgreiðslu.

Róbótar sem sækja vörur í rekka, stafvæðing afgreiðsluferla og rauntímayfirsýn yfir allar birgðir gerir fyrirtækjum mögulegt að afgreiða fleiri pantanir á skemmri tíma og með mun færri villum en áður.

Þessi þróun er ekki frátekin fyrir stóru risana - þetta verður ein mikilvægasta umbreyting fyrir öll fyrirtæki sem vilja vaxa með netsölu. Þau sem taka skrefið yfir í sjálfvirkni uppskera hraðari vinnsluferla, stöðugri afhendingu og meira rekstraröryggi þegar álag eykst. 

Sjálfvirk vöruhús verða því einn af lykilárangursþáttum árið 2026. Á Íslandi hafa fyrirtæki eins og Innnes náð miklum árangri í tæknivæðingu sinna vöruhúsa.


Innnes Vöruhús (1)

Hátæknivöruhús Innnes

Innnes leggur áherslu á tæknilega ferla og sjálfvirkni. Pantanir berast allan sólarhringinn sem hægt er að setja strax í vinnslu þannig að þær verði klárar til útsendingar strax um morguninn. Mynd: Innnes.

7. Sjálfbærni sem raunverulegt forskot – ekki bara PR-spuni

Meðvitund um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð hefur aukist mikið, ekki síst meðal yngra fólks. 53% neytenda í Bandaríkjunum segjast reiðubún að greiða hærra verð frá aðila sem býður umhverfisvænar umbúðir, samkvæmt Statista.

Almennt eru neytendur sífellt betur meðvitaðir um samfélags- og umhverfisáhrif neyslu sinnar. Fyrirtæki og vörumerki hafa einfaldlega ekki lengur efni á að skila auðu í þessum málum.

Fyrir vikið leggja fleiri og fleiri vörumerki áherslu á sjálfbærni í sínum markaðsskilaboðum, vöruframboði og þjónustu.

Þetta snýr að flestum þáttum, eins og því uppruna vörunnar, framleiðsluferlinu, réttindum starfsfólks, vistvænum umbúðum og svo framvegis.

Fyrirtæki sem taka sjálfbærni alvarlega og miðla skýrt áherslum sínum og samfélagsverkefnum til viðskiptavina standa tvímælalaust betur en hinir sem ekkert gera.


Sjalfbaerni I Ecommerce

Sjálfbærni er stór sveifla í netverslun

Sjálfbærni og samfélagsábyrgð vörumerkja skiptir yngri neytendur miklu máli. Mynd frá Viamo.com, gögn frá eMarketer.

8. Áskriftarlíkön taka kipp - líka í B2B

Áskriftarviðskipti hafa verið að ryðja sér til rúms í mörgum geirum, en árið 2026 verður þessi nálgun normið - ekki bara fyrir snyrtivörur, fóður eða rakvélar, heldur líka fyrir skrifstofuvörur, heilsutæki, hreinlætisvörur og hvað annað sem fyrirtæki þurfa fyrir rekstur sinn.

Áskriftarlíkön bjóða bæði fyrirtækjum og viðskiptavinum upp á mikil þægindi: viðskiptin verða fyrirsjáanleg, birgðahaldið einfaldara og þjónustan persónulegri. Söluaðilar fá stöðugara tekjuflæði og betri yfirsýn, en viðskiptavinurinn fær þær vörur sem hann þarf, á réttum tíma.

Þetta verður eitt af stærri tækifærunum fyrir vefverslanir 2026, og snýr sérstaklega að B2B markaðnum þar sem regluleg innkaup er stór hluti af daglegum verkferlum.


Innnes 1 New

Innnes appið. Viðmót og notendaupplifun fyrir síma hefur aldrei verið mikilvægari fyrir vefverslanir

Miklar breytingar í B2B viðskiptum

Mikil gerjun er í vefverslun á neytendamarkaði (B2C) og dæmi sem tekin eru að ofan eru flest þaðan. En breytingin í B2B er jafnvel enn dramatískari og má jafnvel tala um umbyltingu síðustu ár.

Síðustu ár hafa líka orðið kynslóðaskipti meðal sérfræðinga og starfsmanna í fyrirtækjum sem hafa áhrif á eða taka ákvarðanir um viðskipti: Yngra fólk vill gera eigin rannsóknir á vörum og þjónustu í gegnum vefinn og helst af öllu afgreiða sig sjálft án aðstoðar sölumanns eða þjónustufulltrúa.

En hvaða breytingar erum við þá að tala um nákvæmlega í B2B verslun? Að mestu leyti er sama þróun og við höfum séð í B2C:

  • Sjálfsafgreiðslulausnir og vefverslanir eru staðalþjónusta - mikill vöxtur hefur verið í B2B vefverslun á heimsvísu. McKinsey spáir því að vefverslun fái 31% hlutdeild í heildarveltu í B2B 2024, úr 20% 2023. Það er gríðarmikil sveifla. Gartner er enn djarfari: 80% viðskipta fara í gegnum veflausnir 2025.
  • Persónusniðin þjónusta - Sífellt fleiri hafa þær væntingar að söluaðilar bjóði persónusniðna upplifun í viðmóti og samskiptum, líkt og þeir hafa vanist sem neytendur. Þetta snýr að öllu frá ABM markaðssetningu (e. account based marketing) til persónusniðinna samskipta eftir að viðskipti hafa komist á.
  • Framúrskarandi notendaupplifun - almennt hafa viðskiptavinir á B2B markaði sambærilegar væntingar til þjónustuupplifunar og þeir eiga að venjast sem neytendur. Þetta snýr að framúrskarandi viðmóti og flæði á vef eða í appi, aðgengi að upplýsingum um staðsetningu sendinga, yfirliti yfir hreyfingar og viðskipti, persónusniðnar ábendingar um nýjar vörur o.s.frv.
  • Snjöll spjallmenni - leiðandi söluaðilar í B2B hafa innleitt snjöll spjallmenni til að aðstoða viðskiptavini, stytta söluferlið, auka tryggð og fækka samskiptum við mennska þjónustufulltrúa.
  • Gagnasöfnun fóðrar snjallar lausnir - með stafvæðingu samskipta og viðskipta safnast mikið magn gagna sem hægt er að nýta í ýmsar lausnir til að spá fyrir um þróunhagræða í innkaupum eða bæta þjónustu.
  • Heildræn þjónustuupplifun - mikilvægt að hugsa fyrir heildrænni upplifun (e. omni-channel experience) viðskiptavina - til dæmis að samskipti í gegnum spjallmenni séu skráð í CRM lausnir.

Vefverslanir Vettvangs

Vettvangur hefur á undanförnum árum byggt upp mikla reynslu og sérhæfingu í þróun stafrænna lausna fyrir fyrirtæki í B2B umhverfi. Við höfum leyst ólíkar tækniflækjur fyrir mörg af leiðandi fyrirtækjum landsins á sínum markaði eins og DisticaInnnesÖryggismiðsstöðinaEpliTandur, Nóa Síríus og HS Veitur.

Sérstaða vefverslana okkar felst í því að sérhver lausn er einstök, sérsmíðuð fyrir hvern viðskiptavin og þarfir hans, þótt þær byggi á sama grunni. Þó eiga þær ýmsa eiginleika sameiginlega eins og fyrsta flokks þjónustuviðmót fyrir viðskiptavini og öfluga sjálfsafgreiðslu.

Lestu um B2B lausnir okkar hér


Vefverslanir

B2B verslanir smíðaðar á Vettvangi

Vefverslanir í B2B þurfa að bjóða fyrsta flokks viðmót og notendaupplifun, rétt eins verslanir á neytendamarkaði.

Samantekt

Vefverslun eykst alls staðar í heiminum samhliða örri þróun í stafrænni tækni. Um leið aukast kröfur og væntingar neytenda. Spunagreindin (e. generative AI) verður sem sterasprauta í persónulegri þjónustu og snjallari spjallmenni.

Almenningur eyðir sífellt meiri tíma á samfélagsmiðlum sem sjá sér hag í því að bjóða vörumerkjum að reka útibú fyrir verslanir sínar þar. AR og VR tækni verður einnig meira áberandi, með öflugri símatækni og hraðari tengingum.

Eitt er víst: Þeir sem vilja vera með í leiknum á næstum árum þurfa að fylgjast vel með og þróa stöðugt áfram sínar lausnir.